London 2012 - Mánuður í fyrsta keppnisdag
Þann 27. júlí nk. verða Ólympíuleikarnir í London settir og hefst keppni strax daginn eftir.  Ísland mun eiga fjölmarga keppendur á leikunum og er það í takt við síðustu leika, í Aþenu og Peking.

Reglur íþróttagreina eru eins misjafnar og þær eru margar og mismunandi er milli greina hvernig hægt sé að vinna sér þátttökurétt.  Þegar þátttökuréttur hefur náðst tilkynnir alþjóðasérsamband um það til viðkomandi sérsambands og ÍSÍ.  Það er síðan í hlutverki ÍSÍ, eftir að framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur samþykkt þátttökuhóp Íslands, að senda inn formlega skráningu og mun það eiga sér stað þann 9. júlí nk.

A-landslið karla vann sér inn þátttökurétt á sérstöku úrtökumóti í byrjun apríl.  Lið Íslands á leikunum verður skipað 14 leikmönnum auk þess sem að einn varamaður getur verið með hópnum í London.

Í badminton  gildir staða á heimslista í byrjun maí og vann Ragna Ingólfsdóttir sér inn keppnisrétt í einliðaleik kvenna.

Í júdó er það sömuleiðis heimslistinn í byrjun maí sem gildir vegna keppnisréttar á Ólympíuleika.  Er þar um að ræða tvískiptan lista, þ.e. heimskvótar og síðan heimsálfukvótar.  Þormóður vann sér þannig inn keppnisrétt á Evrópukvóta.

Í frjálsíþróttum eru svokölluð A og B lágmörk.  Hver þjóð má senda einn aðila í grein sem nær B lágmarki en til að senda fleiri keppendur í grein þurfa þeir allir að ná A lágmarki.  Í dag hafa þrír aðilar náð B-lágmarki í frjálsíþróttum.  Ásdís Hjálmsdóttir í spjótkasti kvenna, Kári Steinn Karlsson í marathonhlaupi karla og Óðinn Björn Þorsteinsson í kúluvarpi karla.  

í sundi eru nýjar reglur í samanburði við fyrri leika.  Á síðustu leikum hafa reglur verið svipaðar og í frjálsíþróttum, þ.e. A og B lágmörk.  Fyrir leikana í London er áfram um tvö lágmörk að ræða Ólympiulágmark (OQT) og Ólympíuviðmið (OST).  Þeir sem ná Ólympíulágmarki fá keppnisrétt á leikunum og mega einnig keppa í þeim greinum sem þeir eiga Ólympíuviðmið í.  Þó mega ekki vera fleiri en tveir keppendur í grein frá hverri þjóð.  Þeir sem ná eingöngu Ólympíuviðmiðum verða að bíða eftir ákvörðun Alþjóðasundsambands um það hvort að þeir hljóti keppnisrétt, og er verið að tilkynna um þær ákvarðanir nú á þessum dögum.

Íslenska kvennasveitin í 4x100m fjórsundi náði frábærum árangri í vetur og á 16 besta tímann á heimslista.  Það veitir Íslandi keppnisrétt í greininni á leikunum í London og þar með fjórum stúlkum.  Þær eru:  Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sarah Blake Bateman, Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eva Hannesdóttir.  

Eygló hefur einnig náð Ólympíulágmarki í 200m baksundi sem veitir henni keppnisrétt í einstaklingsgreinum á leikunum og getur hún einnig synt í þeim greinum sem hún hefur Ólympíuviðmið í sem eru 100m baksund og 200m fjórsund.
Sarah hefur einnig náð Ólympíulágmarki í 50m skriðsundi sem veitir henni keppnisrétt í einstaklingsgreinum á leikunum og getur hún einnig synt í þeim greinum sem hún hefur Ólympíuviðmið í sem eru 100m skriðsund og 100m flugsund.
Hrafnhildur hefur náð OST lágmarki í 200m bringusundi og fær einnig að synda þá einstaklingsgrein, samkvæmt ákvörðun Alþjóðasundsambandsins.

Ásgeir Sigurgeirsson hefur einnig fengið úthlutað keppnisrétti í 50m frjálsri skambyssu á leikunum í London.  Jafnframt fær hann að keppa í loftskambyssu þar sem hann hefur náð Ólympíulágmarki í þeirri grein.  Um er að ræða endurúthlutun á kvótasæti, en í þessum greinum vinna keppendur sér inn þátttökurétt á ákveðnum mótum.  Ásgeir var nærri því að vinna sér í rétt í vetur og nú þegar Alþjóðasambandið fer í að endurúthluta ónotuðum kvótasætum þá var Ásgeir einn af þeim sem voru næstir inn.

Enn er möguleiki fyrir fleiri íþróttamenn að tryggja sér þátttökurétt, s.s. í frjálsíþróttum og sundi.  Það má því búast við að enn bætist í hópinn nú á síðasta mánuðinum fyrir leika.